Það er mér mikið gleðiefni að opna heimasíðuna mína á baráttudegi verkafólks. Í mínum huga hefur þetta ætíð verið mikill hátíðardagur en líkt og margir Íslendingar var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að hefja þátttöku mína á vinnumarkaði sem almennur verkamaður. Að hafa sópað götur, reitt arfa, snyrta fisk, saltað síld, pillað rækju, afgreitt í verslun og þrifið er lífsreynsla sem ég hefði ekki viljað fara á mis við. Fyrir utan samskipti við fjölskyldu og vini held ég að fátt hafi mótað skoðanir mínar meira en samskipti við vinnufélaga í gegnum tíðina, ekki síst á þessum fyrstu árum þegar maður gekk í fyrsta skipti, blautur og á bakvið eyrun, inn í heim fullorðinna.
Það er bæði misskilningur og klisja að halda því fram að með bættum kjörum hafi þessi dagur tapað mikilvægi sínu. Og það er jafnvel enn meira villandi að halda því fram að Ísland sé stéttlaust samfélag eins og við höfum löngum stært okkur af. Reglulega koma upp mál sem minna okkur á mikilvægi þess að sofna ekki á verðinum. Bruninn við Bræðraborgarstíg í Reykjavík í fyrrasumar er líklega sorglegasta dæmið í seinni tíð, mál sem afhjúpaði með skelfilegum hætti þær ömurlegu aðstæður sem erlent verkafólk þarf oft að sætta sig við hér á landi. Ekkert samfélag sem kennir sig við jöfnuð og réttlæti getur sætt sig við þetta.
Réttindin sem launafólk ávann sér á síðustu öld virka ef til vill sjálfsögð í dag og okkur hættir til að gleyma að fyrir þeim var barist af hörku. Það verður ætíð verkefni okkar jafnaðarmanna að standa á vaktinni og tryggja mannsæmandi kjör launafólks í landinu. Ég óska okkur öllum til hamingju með daginn.